Nýr kafli í stríðinu og samskiptaforritið Ghost

Spegillinn - Un podcast de RÚV

Tólf létust og hátt í 3.000 særðust þegar þúsundir símboða sprungu nánast samtímis í Líbanon í gær og minnst níu hafa látist síðan að labb-rabb-tæki og sólarsellur á þökum íbúðarhúsa tóku að springa líka síðdegis í dag. Og fyrir stundu lýstu Ísraelar því yfir að nýr kafli í stríðinu fyrir botni Miðjarðarhafs væri hafinn, með áherslu á norðurvígstöðvarnar - sem eru við landamæri Líbanons. Evrópsku löggæslustofnanirnar Eurojust og Europol upplýstu í dag að þær hefðu tekið þátt í alþjóðlegum aðgerðum til að uppræta samskiptamiðilinn Ghost. Vefþjónn á Íslandi er talinn hafa hýst samskiptin að einhverju leyti. Ghost virðist hafa verið hannaður gagngert til að gera glæpamönnum og skipulögðum glæpagengjum kleift að eiga dulkóðuð samskipti sín á milli. Í Noregi er núna farið að tala um flótta fólks frá stjórnmálunum. Ungt fólk vill heldur gera eitthvað annað og meira spennandi en að stýra landi og sveitarstjórnum. Stöðugum illdeilum, þrasi og skítkasti á samfélagsmiðlum er auk annars kennt um.