11 | Kosningar í Póllandi, krísa í Katalóníu og falsfréttir
Heimskviður - Un podcast de RÚV - Les samedis
Catégories:
Í ellefta þætti Heimskviðna er fjallað um nýafstaðnar þingkosningar í Póllandi, þar sem þjóðernissinnaði hægriflokkurinn Lög og réttur vann stórsigur. Flokkurinn hefur gert umtalsverðar breytingar í landinu frá því hann tók við völdum 2015. Pólland er á hættulegri leið út af braut lýðræðis og frelsis - segja sumir. Pólverjar eiga rétt á því að ákveða sjálfir hvernig þeir vilja haga sínu samfélagi og gera það í frjálsum lýðræðislegum kosningum - segja aðrir. Ólöf Ragnarsdóttir fór til Póllands, fylgdist með kosningunum og ræddi við fólk. Þá er sömuleðis fjallað um stöðuna í Katalóníu, en síðustu viku voru níu katalónskir stjórnmálamenn dæmdir í 9 til 12 ára fangelsi fyrir aðkomu sína að þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir tveimur árum þar sem greidd voru atkvæði um sjálfstæði Katalóníu. Sjálfsstæðissinnar höfðu betur og í kjölfarið lýsti Katalónía yfir sjálfstæði. Spænsk stjórnvöld tóku vægast sagt illa í þann gjörning eins og fólk kannski man, og sem fyrr segir féllu þessir hörðu dómar í síðustu viku. Mótmæli hafa færst í aukanna í þessari viku og erfitt er að segja til um hvað gerist. Guðmundur Björn fjallar um málið og ræðir við hinn katalónska Ramon Flavia Piera, sem er búsettur á Patreksfirði. Þá fjallar Birta Björnsdóttir um baráttuna við falsfréttir, og bætur sem bandarískum manni voru dæmdar í síðastliðinni viku. Bæturnar fær maðurinn frá samsæriskenningasmiðum sem halda því fram að dauði sex ára sonar mannsins hafi verið sviðsettur. Að skotárásin sem framin var í Sandy Hook barnaskólanum 2012, þar sem 20 börn voru myrt, hafi í raun aldrei átt sér stað. Heimskviður er fréttaskýringaþáttur sem fjallar á ítarlegan og lifandi hátt um heimsmálin, um allt það sem ekki gerist á Íslandi. Ritstjórar þáttarins eru Guðmundur Björn Þorbjörnsson og Birta Björnsdóttir.