Stórsókn Rússa í Donbas og Covid í Kína

Hádegið - Un podcast de RÚV

Við byrjum í Úkraínu, nánar tiltekið á Donbas-svæðinu í austurhluta landsins. Sveitir rússneska hersins hófu þar stórsókn í gær og telja sérfræðingar að nú sé nýr kafli hafinn í innrás Rússa; einbeiting sé nú fyrst og fremst á að ná yfirráðum á Donbas-svæðinu og þannig landtengingu við Krímskaga. Guðmundur Björn fer yfir stöðuna. Vegna hinnar ströngu Covid-19 stefnu kínverskra stjórnvalda standa yfir umfangsmiklar lokanir í minnst 44 borgum Kína vegna útbreiðslu Covid-19, þar á meðal í fjölmennustu borg landsins - Shanghai - þar sem matar- og vöruskortur og örvænting er farin að gera vart við sig. Á meðan flest önnur ríki heims hafa þróað og aðlagað viðbrögð sín og aðferðir við að ná tökum á heimsfaraldri eftir gangi og þróun hans og aukinni þekkingu á veirunni hafa kínversk stjórnvöld lítið breytt út af strangri stefnu sinni - stefnu sem virðist vera að virka. En í þessu tæplega eins og hálfs milljarðar ríki - fjölmennasta ríki heims hafa 'bara' um 190 þúsund manns smitast og rúmlega 4.600 manns látist af völdum veirunnar. Sem vissulega eru mjög margir, en þetta er mjög lágt hlutfall ef miðað er til dæmis við Bandaríkin, þriðja fjölmennasta ríki heims með rúmlega 300 milljónir íbúa, þar sem rúmlega 80 milljónir manns hafa greinst með veiruna og milljón látist af völdum hennar. Við berum stefnu kínverskra stjórnvalda, árangur hennar, fórnarkostnaðinn og framhaldið undir Guðbjörgu Ríkeyju Thoroddsen Hauksdóttur, doktorsnema í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, í síðari hluta þáttarins. Hádegið er fréttaþáttur sem er á dagskrá alla virka frá 12 til 13 í umsjón Guðmundar Björns Þorbjörnssonar og Katrínar Ásmundsdóttur.